Fréttir

Laus staða doktorsnema í Umhverfis- og auðlindafræði við HÍ

Námsbraut í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands auglýsir lausa til umsóknar stöðu doktorsnema í umhverfis- og auðlindafræði með áherslu á félagslegt og hagrænt gildi sjávarspendýra. Doktorsneminn mun tilheyra Norræna Öndvegisverkefninu ARCPATH (Arctic Climate Predictions: Pathways to Resilient, Sustainable Societies), sem miðar að því að greina og stuðla að ábyrgri þróun á Norðurslóðum. Verkefnið er fjármagnað til fimm ára af Öndvegisstyrk frá NordForsk.

Fyrirlestur Astrid Ogilvie: Sagas and Science

Á fimmtudaginn 9. mars 2017 kl. 16:30 mun dr. Astrid Ogilvie flytja fyrirlestur sem hún nefnir Sagas and Science: Documentary Evidence of Changes in Climate and Sea-Ice Incidence in Iceland from the Settlement to the late 1800s. Fyrirlesturinn verður í Miðaldastofu Háskóla Íslands, í stofu 101 í Odda. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og er öllum opinn. Sjá nánar: miðaldastofa.hi.is.

Við höfum tekið þrjú Græn skref

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur þátt í Grænum skrefum í rekstri ríkisstofnana. Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að draga úr umhverfisáhrifum vegna reksturs stofnana íslenska ríkisins. SVS tók fyrsta skrefið í febrúar 2015, annað skrefið í mars 2016 og hefur nú tekið þriðja skrefið af fimm. Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. Verkefnið er einfalt og aðgengilegt. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsfólks og draga úr rekstrarkostnaði.

Laus staða Nansen gestaprófessors

Háskólinn á Akureyri hefur auglýst eftir nýjum Nansen gestaprófessor við HA skólaárið 2017-2018. Staðan er veitt til eins árs í senn framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Almennt þurfa umsækjendur um stöðuna að hafa lokið doktorsgráðu (eða hafa sambærilega reynslu) og hafa traustan akademískan bakgrunn á sviði lagalegra málefna og sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. Einnig er krafist reynslu af þverfaglegu starfi er lýtur að hinu flókna samspili mannlegs samfélags og umhverfisins og brýnt er að umsækjendur búi yfir góðri samskiptahæfni og félagslegri færni. Þá er reynsla af rannsóknastarfi varðandi málefni norðurslóða og af þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarteymum nauðsynleg, sem og skjalfest færni til að afla rannsóknarstyrkja.

IASC viðurkenning 2017

Árlega veitir IASC einstaklingi viðurkenningu fyrir framúrskarandi framlag til skilnings á norðurslóðum. Viðurkenningin verður veitt á ársfundi IASC (ASSW 2017) sem haldinn verður í Prag 31. mars – 7. apríl 2017. Óskað er eftir að tilnefningar berist á sérstöku eyðublaði til skrifstofu IASC í síðasta lagi 31. desember 2016. Sjá nánari upplýsingar á vefsetri IASC.

2017 Arctic Science Summit Week: Ferðastyrkir

Í boði eru þrír ferðastyrkir, hver að upphæð EUR 650, til þátttöku í Arctic Science Summit Week sem fram fer í Prag í Tékklandi 31. mars til 7. apríl 2017. Umsóknarfrestur er til 27. nóvember 2016.

Minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar 2016

Minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar 2016 verður haldinn í Dartmouth College, BNA, þann 3. nóvember 2016. Fyrirlesturinn kallast Managing the Wilderness: Arctic Perspectives og er fluttur af Hugh Beach, prófessor emeritus í mannfræði við Háskólann í Uppsölum. Föstudaginn 4. nóvember 2016 verða panelumræður undir heitinu People, policy and adaptations to rapid change in the Arctic: The role of multidisciplinary research and international collaboration for sustainability.

Lausar stöður doktorsnema við Nord Universitet í Bodö í Noregi

Lausar eru tvær stöður doktorsnema við Nord Universitet i Bodö í Noregi.

Norðurskautsráðið 20 ára

Norðurskautsráðið er 20 ára um þessar mundir og að því tilefni er efnt til tveggja viðburða um norðurslóðamál í þessari viku á Akureyri og í Reykjavík.

Hvalaráðstefna á Húsavík

Þriðja hvalaráðstefnan á Húsavík verður haldin þriðjudaginn 21. júní 2016. Ráðstefnan er samstarfsverkefni Hvalasafnsins á Húsavík og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.