Til baka

SustainME - Sustainable Human Use of the Arctic Marine Environment

Ilulissat Icefjord (Ilulissat Kangerlua), November 2024
Ilulissat Icefjord (Ilulissat Kangerlua), November 2024

Verkefnið Sjálfbær nýting hafsvæða á norðurslóðum (e. Sustainable Human Use of the Arctic Marine Environment - SustainME) er þverfaglegt rannsóknarverkefni fjármagnað af NordForsk. University of Ottowa í Kanada (Dr. Jackie Dawson) fer fyrir verkefninu í samvinnu við Hafrannsóknastofnun Noregs. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er ein 17 samstarfsstofnana verkefnisins sem fjármagnað er til fimm ára (2025-2029).

Meginmarkmið verkefnisins er að skapa nýja þekkingu með virkri þátttöku heimafólks sem styður við sjálfæra nýtingu hafsvæða á norðurslóðum. Verkefninu er sérstaklega ætlað að bera kennsl á og meta lausnir sem geta dregið úr áhrifum og áhættu sem tengjast samanlögðum áhrifum minnkandi hafíss og aukinna umsvifa manna á hafsvæðum norðurslóða.

Prófessor Joan Nymand Larsen leiðir rannsóknir við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og mun ásamt Dr Jón Hauki Ingimundarsyni í samstarfi við alþjóðlegt samstarfsfólk leiða vinnu innan verkefnisins sem snýr að fæðuöryggi á norðurslóðum. Sú vinna felur í sér vettvangsrannsóknir í Ilulissat á Vestur-Grænlandi.

Rannsóknin nálgast velferð á heildrænan hátt sem tekur til andlegrar og líkamlegrar heilsu, efnahagslegs öryggis samfélaga og öruggra leiða til lífsviðurværis. Fæðuöryggi er sömuleiðis skoðað frá heildrænu sjónarhorni þar sem áhersla er lögð á bæði sjálfsöflun næringar og aðkeypta fæðu. Þessi hluti verkefnisins mun gera skil á tengslum hafíss og hafsskilyrða, sjóflutningum og lifandi auðlindum hafsins í samhengi við velferð samfélaga og fæðuöryggi.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar mun vinna í samstarfi við University of Ottawa, University of Manitoba, University of Calgary, Toronto Metropolitan University, University of Montreal, Institute of Marine Research, Norwegian Polar Institute, Norwegian Meteorological Institute, UiT Arctic University of Norway, Danish Meteorological Institute og Finnish Meteorological Institute.

Fyrir frekar upplýsingar:

NordForsk – Sustainable Human Use of the Marine Environment (SustainME)

Prófessor Joan Nymand Larsen jnl@unak.is