Dr. Romain Chuffart gengur til liðs við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Það gleður okkur að tilkynna að Dr. Romain Chuffart, Nansen prófessor í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri, hefur gengið til liðs við stofnunina frá og með 1. janúar 2026. Romain tryggði sér nýverið fjármögnun fyrir tvö alþjóðleg rannsóknarverkefni og mun leiða bæði rannsóknarteymin við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Romain er með meistaragráðu í Heimskautarétti frá Háskólanum á Akureyri og doktorsgráðu frá lögfræðideild University of Durham í Bretlandi. Hann hefur verið virkur þátttakandi í norðurslóðarannsóknum við Háskólann á Akureyri sem Nansen prófessor síðan 2024. Nansen prófessorstaðan er gestaprófessorstaða í norðurslóðafræðum, veitt framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Stöðunni var komið á fót fyrir tilstuðlan viljayfirlýsingar utanríkisráðherra Íslands og Noregs árið 2011 um rannsóknarsamstarf á sviði norðurslóðafræða.

Autonomous Technologies for Ocean Governance: Maritime Autonomy, Responsibility, and Environment (AUTO-MARE) 

Fyrra rannsóknaverkefnið sem leitt er af Romain, Autonomous Technologies for Ocean Governance: Maritime Autonomy, Responsibility, and Environment (AUTO-MARE), er fjármagnað af NordForsk frá janúar 2026 út desember 2028. Verkefnið rannsakar hvernig notkun gervigreindar og sjálfvirkra kerfa er að breyta hafsvæðastjórnun og leggur sérstaka áherslu á ábyrgð, öryggi og umhverfisvernd. Verkefnið mun meta hvernig stjórnvöld á Norðurlöndum og Balkanskaga geta brugðist við tæknilegri þróun og um leið stutt við gagnsæi, ábyrgð og réttindi náttúrunnar. AUTO-MARE er unnið í samvinnu við Kaunas University í Litháen, Arctic Centre at the University of Lapland í Finnlandi, Nord University og University of Stavanger í Noregi, University of Gothenburg í Svíþjóð og CLIMA – Centre for Climate Change Law and Governance at the University of Copenhagen í Danmörku.

ICE BRIDGE: Bridging Ice Climate Technologies and Governance for Biodiversity in the Arctic

Romain fer einnig fyrir rannsóknum í síðara verkefninu ICE BRIDGE: Bridging Ice Climate Technologies and Governance for Biodiversity in the Arctic, sem fjármagnað er af BioDiversa+ (European Biodiversity Partnership) frá 1. janúar til 31. Desember 2028. ICE BRIDGE beinir sjónum sínum að ört hlýnandi loftslagi á norðurslóðum og áhrifum nýrra tæknilausna sem eiga að takast á við loftslagsbreytingar á lífbreytileika á norðurslóðum. Verkefnið miðar að því að þróa ramma fyrir stjórnvöld til að mæta mögulegum áhættum á forvirkan hátt. Markmiðið er að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífbreytileika og styðja við loftslagsréttlæti. Verkefnið mun skoða þverun þessara nýju tæknilausna (með sérstaka áherslu á solar radiation management – SRM sem á íslensku gæti útlagst sem stjórnun sólargeislunar), vistfræðilegs tjónnæmis og lagalegrar ábyrgðar. ICE BRIDGE er unnið í samvinnu við rannsakendur frá Arctic Centre, University of Lapland í Finnlandi; Nord University í Noregi; Universitat Autònoma á Spáni; Rannsóknasetur HÍ á Húsavík; og Alfred Wegener Institute, Helmholtz Centre for Polar and Marine Research í Þýskalandi.

Spennandi tímar framundan

Horfandi fram á veginn kveðst Romain spenntur að ganga til liðs við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og leiða þessi tvö verkefni. „Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er ein af áhrifamestu rannsóknastofnunum í norðurslóðaheiminum og ég vona að ég geti lagt mitt af mörkum til framúrskarandi arfleifðar hennar á sviði þverfaglegrar fræðimennsku. Með því að fella þessi tvö alþjóðlegu rannsóknarverkefni inn í starf stofnunarinnar bind ég vonir við, og hlakka til, að stuðla að nánu samstarfi sem brúar bilið á milli lögfræði, tækni og félagsvísinda til þess að mæta þeim flóknu áskorunum sem blasa við norðurslóðum í dag“ segir Romain.

Við óskum Romain til hamingju með þessi nýju og spennandi verkefni og bjóðum hann hjartanlega velkominn til Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.