Í maí og júní síðastliðnum sneri ICEBERG rannsóknaverkefnið aftur til Norðausturlands og Suður-Grænlands fyrir sitt annað vettvangstímabil. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er ein 16 samstarfsstofnana verkefnisins sem er fjármagnað af Evrópusambandinu og leitt af Dr. Thora Herrmann (samræmingaraðili vísinda) og Dr. Élise Lépy (verkefnastjóri) við Háskólann í Oulu, Finnlandi.
ICEBERG, sem auk Íslands og Grænlands felur í sér vettvangsvinnu á Svalbarða, er þverfaglegt, vettvangsmiðað rannsóknarverkefni um loftslagsbreytingar, mengun og aðlögun strandbyggða á norðurslóðum. Verkefnið beitir nálgun sem leggur áherslu á náið samstarf við heimafólk og virka þátttöku íbúa svæðanna við þekkingarsköpun og hönnun lausna (sjá arctic-iceberg.eu).
Vikuna 25.-31. maí tóku Jón Haukur Ingimundarson, Þórný Barðadóttir og Helga Númadóttir hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á móti samstarfsfólki sínu í ICEBERG verkefninu á Norðausturlandi. Eftir vettvangsvinnu á Íslandi héldu Joan Nymand Larsen, Jón Haukur Ingimundarson og Helga Númadóttir svo af stað í ferðalag til Qaqortoq á Suður-Grænlandi þar sem þau sameinuðust aftur ICEBERG samstarfsfólki sínu og við tóku viðburðaríkir dagar í vettvangsvinnu á Suður-Grænlandi.
Á meðan dvölinni stóð höfðu ICEBERG rannsakendurnir víðtækt samráð við nærsamfélagið, bæði á Norðausturlandi og Suður-Grænlandi. Áhrif loftslagsbreytinga og mengunar á samfélögin voru í brennidepli og fól samráðið meðal annars í sér að safna gögnum um hvernig heimafólk skynjar og upplifir breytingar, áhættur og tjónnæmi vegna loftslagsbreytinga og mengunar. Samráð var haft við fjölbreytta hópa hagaðila úr ýmsum geirum, þ.á.m. á sviði menntunar, ferðaþjónustu og iðnaðar, sem og fulltrúa bæjaryfirvalda, handverksfólk og veiðimenn. Meðlimir rannsóknateymisins tóku viðtöl og framkvæmdu könnun, héldu rýnihóp fyrir konur, buðu upp á þjálfun fyrir notkun gagnvirkra korta til að kortleggja mengun og undirbjuggu vinnustofur um þróun framtíðarsviðsmynda og áætlana til að draga úr mengun með íbúum sem eru á döfinni eftir áramót.
Vettvangsvinnan á þessu öðru vettvangstímabili ICEBERG verkefnisins byggði á sterkum grunni þeirra vinnu og samráði sem fram fór fyrsta vettvangstímabilið 2024. Mikilvægum gögnum hefur verið safnað og dýrmæt tengsl við heimafólk dýpkuð. Sterkt samstarf milli rannsakenda og heimafólks er lykilþáttur í því að tryggja að þekkingin sem er búin til til þess að auka viðnámsþrótt og aðlögunargetu sé í samræmi við raunveruleika fólks sem býr á þessum svæðum. Frjótt samstarf við hagaðila og heimafólk stuðlaði að árangursríku öðru vettvangstímabili, bæði á Íslandi og á Grænlandi.