Ný rannsóknarverkefni: Aðkallandi umhverfis- og samfélagslegar áskoranir norðurslóða í brennidepli

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hlaut nýverið fjármögnun sem samstarfsaðili í tveimur alþjóðlegum rannsóknaverkefnum sem bæði beina sjónum sínum að aðkallandi umhverfis- og samfélagslegum áskorunum á norðurslóðum. Prófessor Joan Nymand Larsen leiðir rannsóknirnar við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Bæði endurspegla verkefnin langvarandi áherslur stofnunarinnar á þverfaglega nálgun, vettvangsvinnu og virka þátttöku nærsamfélaga í rannsóknum á norðurslóðum.

Sjálfbær nýting hafsvæða á norðurslóðum

Fyrra verkefnið, SustainME (Sustainable Human Use of the Arctic Marine Environment) er rannsóknarverkefni fjármagnað af NordForsk og leitt af University of Ottowa í Kanada í samvinnu við Hafrannsóknastofnun Noregs. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er ein 17 samstarfsstofnana verkefnisins sem fjármagnað er til fimm ára (2025-2029). Meginmarkmið verkefnisins er að skapa nýja þekkingu með virkri þátttöku heimafólks sem styður við sjálfæra nýtingu hafsvæða á norðurslóðum. Verkefninu er sérstaklega ætlað að bera kennsl á og meta lausnir sem dregið geta úr áhrifum og áhættu sem tengjast samanlögðum áhrifum minnkandi hafíss og aukinna umsvifa manna á hafsvæðum norðurslóða.

Prófessor Joan Nymand Larsen fer fyrir vinnunni ásamt Dr Jóni Hauki Ingimundarsyni og munu þau í samvinnu við alþjóðlegt samstarfsfólk taka þátt í að leiða rannsóknir innan verkefnisins sem snúa að fæðuöryggi á norðurslóðum. Sú vinna felur í sér vettvangsrannsóknir í Ilulissat á Vestur-Grænlandi. Rannsóknin nálgast velferð á heildstæðan hátt sem tekur til andlegrar og líkamlegrar heilsu, efnahagslegs öryggis samfélaga og öruggra leiða til lífsviðurværis. Fæðuöryggi er sömuleiðis skoðað frá heildrænu sjónarhorni þar sem áhersla er lögð á bæði sjálfsöflun næringar og aðkeypta fæðu. Þessi hluti verkefnisins mun gera skil á tengslum hafíss og hafsskilyrða, sjóflutningum og lifandi auðlindum hafsins í samhengi við velferð samfélaga og fæðuöryggi.

Ilulissat, október 2024

Varðveisla menningarlegrar arfleifðar á tímum loftslagsbreytinga

Í seinna verkefninu, Mapping Memories: Spatial Storytelling for Arctic Heritage Preservation in Times of Climate Change, vinnur Stofnun Vilhjálms Stefánssonar í samstarfi við NordRegio, Places.nu, Vestlandforskning og Ilulissat Icefjord Center. Verkefnið, sem leitt er af NordRegio í nánu samstarfi við Ilulissat Icefjord Center, miðar að því að skrásetja, varðveita, og miðla menningararfleifð með þátttöku í frásögnum og stafrænni kortlagningu. Verkefnið beinir sjónum sínum að tveimur samfélögum á norðurslóðum og samanstendur af tveimur samtengdum undirverkefnum; eitt sem fer fram í Ilulissat á Vestur-Grænlandi og hitt í Longyearbyen á Svalbarða. Framlag Joan er innan verkefnisins sem unnið er í Ilullisat og á heimsminjastað UNESCO í Ilulissat ísfirðinum.

Á norðurslóðum stafar sögulegum svæðum og óáþreifanlegum menningararfi á borð við langvarandi hefðir alvarleg ógn af loftslagsbreytingum, þ.m.t. vegna sífreraþiðnunar. Með því að virkja ungt fólk til þess að skrásetja minningar og sögu þeirra sem eldri eru styður verkefnið við þekkingarfærslu á milli kynslóða samhliða því að auka vitund um áhrif loftslagsbreytinga á menningararf.  

Vettvangsvinna í Ilullissat 

Bæði fela verkefnin í sér vettvangsrannsóknir í Ilulissat á Vestur-Grænlandi. Þar hafa bæði Joan og Jón Haukur áralanga reynslu af því að stunda vettvangsrannsóknir, m.a. á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunaraðgerðum sem framkvæmdar hafa verið í nánu samstarfi við heimafólk í tengslum við sífreraverkefnin NUNATARYUK (2017-2023, sjá https://nunataryuk.org/) og yfirstandandi ILLUQ-verkefnið, sem byggir á NUNATARYUK og hefur tengingu við hið nýfjármagnaða Mapping Memories verkefni. 

Joan ítrekar mikilvægi þverfaglegrar nálgunar í ljósi þess hversu margbrotið svæði norðurslóðir eru. “Í rannsóknum okkar á Vestur-Grænlandi skoðum við samtengd áhrif umhverfis, samfélags og hagkerfis og hvernig breytingar á einum þætti hafa áhrif á alla hina þættina,” segir Joan. Hún leggur jafnframt áherslu á mikilvægi aðkomu heimafólks að þekkingarsköpun: “Mikið af okkar rannsóknum fela í sér nána samvinnu við íbúa nærsamfélagsins. Þverfagleg nálgun og virk þátttaka heimamanna í þekkingarsköpun gefur okkur heildstæðari og raunhæfari mynd af aðstæðum sem gerir okkur kleift að vinna saman að raunsæjum og samfélagsmiðuðum lausnum.”

Fyrir nánari upplýsingar:

SustainME - Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mapping Memories - Stofnun Vilhjálms Stefánssonar