Skrifstofa Rannsóknaþings norðursins

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólinn á Akureyri halda sameiginlega utan um rekstur og stjórnun skrifstofu Northern Research Forum (NRF). Markmið með Rannsóknaþingi norðursins er að skapa umræður og auka samráð milli vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum. Á Rannsóknaþinginu skapast vettvangur fyrir stefnumótandi umræðu um hlutverk rannsókna sem tengjast sjálfbærri þróun og lífvænlegri búsetu, frið og öryggi, félagslegri stefnumótun, umhverfisstefnu og áhrifum hnattrænna breytinga. Þessi málefni eru einnig megin viðfangsefni Háskóla norðurslóða en Rannsóknaþing norðursins tengist starfsemi þeirrar stofnunar traustum böndum.


Sjá nánar á heimasíðu NRF.


Fyrsta Rannsóknaþing norðursins (Northern Research Forum) var haldið við Háskólann á Akureyri 4.- 6. nóvember 2000.
Rannsóknaþing norðursins verður haldið í aðildarríkjum Norðurskautsráðsins annað hvert ár. Þátttakendur í Rannsóknaþinginu eru vísindamenn, háskólakennarar, stjórnmálamenn, stjórnendur fyrirtækja, embættismenn, sveitarstjórnarmenn og þeir sem stjórna auðlindum eða nýta þær. Ungt fólk og fólk sem býr yfir nýjum aðferðum er einnig hvatt til að sækja Rannsóknaþingið. Forsvarsmenn Rannsóknaþingsins vilja að tekið sé heildstætt á málefnum norðursins og að byggt verði á reynslu þess fólks sem býr á norðlægum slóðum.

Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands kom fyrstur fram með hugmynd um Rannsóknaþing norðursins í september 1998 í ræðu í tilefni af tuttugasta starfsári Háskólans í Lapplandi í Rovaniemi, Finnlandi. Starfsemi rannsóknaþingsins hófst á Íslandi í október 1999 með myndun stjórnarnefndar. Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sjá sameiginlega um skipulag og daglega starfsemi Rannsóknaþingsins.

Forseti Íslands er formaður heiðursráðs Rannsóknaþingsins. Helstu styrktaraðilar Rannsóknaþingsins eru Ford Foundation og Carnegie Corporation í Bandaríkjunum, menntamálaráðuneyti og Háskólinn á Akureyri.

Yfirskrift þessa fyrsta Rannsóknaþings  var "Stefnumót í norðri" (North Meets North) og sérstök áhersla var lögð á eftirtalin viðfangsefni:

  • Mikilvægi sögunnar fyrir frið og öryggi á okkar tímum
  • Efnahagskerfi og hnattvæðing norðlægra svæða
  • Svæðaskipting og stjórnun
  • Framkvæmd stefnu um norðlægu víddina (Northern Dimension)
  • Hagnýting vísinda og tækni á norðlægum svæðum

Á þessu fyrsta Rannsóknaþinginu hélt Ólafur Ragnar Grímsson opnunarræðuna og síðan fluttu ávörp ýmsir vel þekktir sérfræðingar um málefni norðlægra svæða. Síðan hófust erindi og umræður um þau viðfangsefni þingsins sem hér var lýst að framan. 

Í tengslum við þingið var opnuð sýning í Listasafni Akureyrar um Vilhjálm Stefánsson.