Fishernet verkefnið Trossan

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tók þátt í Evrópuverkefninu Fishernet/Trossan sem er þriggja ára samstarfsverkefni fiskveiðiþjóða í Evrópu.  

Verkefnið hófst í september 2008 og miðar að því að varðveita, miðla og nýta menningararf sem tengist sjósókn, umhverfisþekkingu sjómanna og sérstakri menningu fiskveiðisamfélaga. Lykilþátttakendur í verkefninu koma frá Sjálfsstjórnarhéraðinu Galesíu á Spáni sem leiðir verkefnið, Íslandi, Noregi, Orkneyjum við Skotland, Búlgaríu og Kýpur.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur þátt í verkefninu með áherslu á strand- og fiskveiðimenningu á Íslandi, Færeyjum og á Grænlandi.

Í samvinnu við fjölmargar stofnanir, söfn og sýningar, fræðimenn, samtök og áhugafólk sem á einn eða annan hátt sinna þessum veigamikla menningararfi, er nú hafin vinna að umfangsmiklu gagnasafni. Þar verður að finna flest það er lýtur að  strand- og fiskveiðimenningu þjóðarinnar að fornu og nýju. Má þar nefna fornminjar við sjávarsíðuna, kynningu á sjóminjum, vitum og verkefnum sem hafa verið unnin eða eru í vinnslu. Einnig er ætlunin að safna saman sem mestu af útgefnu efni, ritgerðum, greinum og fyrirlestrum, og gera lista yfir bækur sem út hafa komið og fjalla um strand- og fiskveiðimenningu.

Gagnagrunnurinn mun því hafa að geyma í máli og myndum, jafnt efni um sjósókn, hlutverk kvenna og karla í fiskveiðimenningu, umhverfisþekkingu, vita, matarmenningu, tónlist, báta, verbúðarleiki og sjóskrímsli, svo eitthvað sé nefnt. Gagnasafninu er ætlað að auðvelda aðgengi að upplýsingum og kynningu á einum dýrmætasta þætti íslenskrar menningararfleifðar. Hér má sjá hvað komið er inn.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar leggur ríka áherslu á þátttöku og samstarf við sem flesta í nærsamfélaginu, ekki síst grasrótarfrumkvæði þar sem unnið er á skapandi hátt með fiskveiðiarfleiðina og aðstoðað við að kynna og gera arfinn spennandi í augum komandi kynslóða.

fishernet logo

www.fishernet.is


Fréttablað FISHERNET (á ensku)

Fishernet newsletter Feb2010
    Nr. 2 - Febrúar 2010
Fishernet newsletter Oct2009
    Nr.1 - Október 2009