WAGE vettvangsvinna í Nanortalik, Suður-Grænlandi

Frá þyrluvellinum í Nanortalik, júní 2025. Mynd: Joan Nymand Larsen
Frá þyrluvellinum í Nanortalik, júní 2025. Mynd: Joan Nymand Larsen

Í júní síðastliðnum ferðuðust Joan Nymand Larsen, Jón Haukur Ingimundarson og Helga Númadóttir hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar til syðsta bæjar Grænlands, Nanortalik, á vegum WAGE verkefnisins. WAGE Circumpolar Partnership beinir sjónum sínum að félagslegum og efnahagslegan ójöfnuði á norðurslóðum og er leitt af Gérard Duhaime hjá Háskólanum í Laval, Quebec.

Joan Nymand Larsen leiðir tilviksrannsókn á Suður-Grænlandi innan WAGE samstarfsins sem er fjármögnuð af SSHRC (Social Sciences and Humanities Research Council of Canada) 2021-2026. Tilviksrannsóknin stuðlar að heildarmarkmiðum WAGE samstarfsins um rannsóknir á núverandi stöðu ójafnaðar og dreifingu auðs og þeim þáttum sem liggja að baki. Joan og Jón Haukur hafa áralanga reynslu af vettvangsrannsóknum bæði á vestur- og suðurstönd Grænlands í nánu samstarfi við heimafólk og hagaðila, þar á meðal í Nanortalik. Sú reynsla lagði dýrmætan grunn fyrir vetttvangsvinnuna í júní síðastliðnum þar sem rannsakendur gátu byggt á fyrri þekkingu og tengslaneti sem þegar var til staðar, á sama tíma og nýrra gagna var aflað og ný tengsl mynduð.

Á meðan dvölinni í Nanortalik stóð höfðu Joan, Jón Haukur og Helga víðtækt samráð við íbúa nærsamfélagsins um samfélags- og umhverfisbreytingar, efnahagsþróun á svæðinu og starfsþjálfunartækifæri. Samráðið fól í sér framkvæmd könnunar, heimsóknir og viðtöl við fjölbreyttan hóp íbúa úr ólíkum geirum, þar á meðal fulltrúa bæjaryfirvalda, iðnaðar, menntunar, ferðaþjónustu, viðskipta, orkugeirans, einkageirans, eldri borgara og veiðimenn og sjómenn. Þar að auki fengu þau tækifæri til þess að heimsækja Nalunaq gullnámuna um 30 kílómetra norðaustur af Nanortalik sem nýlega hóf framleiðslu.

Það sem upp úr stendur eftir afkastamikla daga af vettvangsvinnu í Nanortalik voru hlýjar móttökur heimafólks og öll þau mikilvægu samtöl sem áttu sér stað. Þessi samtöl veita dýrmæta innsýn í núverandi aðstæður og dýnamík, forgangsatriði og áhyggjuefni íbúa er varða efnahagsþróun, breytingar og tækifæri, og styrkti enn frekar grundvöllinn fyrir áframhaldandi samstarf.