Í þessum pistli er stiklað á stóru um sumt af því helsta sem starfsfólk SVS hefur fengist við síðustu vikur.
Október er oft erilsamur tími fyrir þá sem starfa að málefnum norðurslóða. Í ár stóð Háskólinn á Akureyri fyrir norðurslóðaþema í október til að vekja athygli á því víðtæka starfi sem fram fer á háskólasvæðinu tengt norðurslóðum. Undir lok september, og til þess að hleypa norðurslóða-október af stokkunum, efndu SVS og HA til Norðurslóðatorgs í Hátíðarsal háskólans, þar sem stofnanir á háskólasvæðinu sem vinna að málefnum norðurslóða komu saman og kynntu störf sín með fyrirlestrum og spjalli á kynningarbásum. Stofnanirnar sem tóku þátt voru Stofnun Vilhjálms Stefánssonar; Alþjóðlega Norðurskautsvísindanefndin (IASC); Norðurslóðanetið; Rannsóknamiðstöð ferðamála; CAFF (vinnuhópur Norðurskautsráðsins um verndun lífríkis á norðurslóðum); PAME (vinnuhópur Norðurskautsráðsins um verndun hafsvæða), auk fulltrúa námsbrautar í heimskautarétti og Nansen-prófessors í norðurslóðafræðum,
Í tilefni af norðurslóðaþema í október setti Jón Haukur Ingimundarson upp farandsýninguna “Heimsskautslöndin unaðslegu” í byggingu háskólans fyrir hönd SVS og í samstarfi við HA. Um er að ræða valdar ljósmyndir og kvikmynd sem sýna frá ævi Vilhjálms Stefánssonar heimskautafara og mannlífi, menningu og náttúru á norðurslóðum Sýningin var upphaflega opnuð á Listasafninu á Akureyri 5. nóvember árið 2000. Í upphafi ársins 2001 var sýningin flutt til Reykjavíkur og síðan hefur hún verið sett upp í Gimli og Winnipeg; Norwich, Vermont; Scandinavia House, New York; Nordatlantens Brygge, Kaupmannahöfn; Iqaluit, Nunavut; safninu Into the Arctic á Akureyri; Minneapolis; Iqaluit, Nunavut; Honningsvåg, Finnmark; Santiago de Compostela og Muros, Spáni; Ilimmarfik, Nuuk; og Qaqortoq, Greenlandi. Sýninguna má enn skoða í Sólborg, byggingu háskólans.

Í HA fóru einnig fram tvær vinnustofur á vegum verkefna sem Tom Barry er í forsvari fyrir. Í síðustu viku septembermánaðar fór fram vinnustofa um málefni hafsins og alþjóðlegt vísindasamstarf í Hátíðarsal háskólans í samstarfi við Háskóla Íslands, Norðurslóðanetið, Rannís og Loftslagsráð á vegum verkefnisins Sterkari staða norðurslóðarannsókna á Íslandi. Auk Tom tóku Catherine Chambers og Helga Númadóttir hjá SVS þátt í vinnustofunni. Þá fór vinnustofa á vegum NACEMAP verkefnisins fram 8 október, þar sem fulltrúar frá björgunarsveitum, lögreglunni, Rauða krossinum, sveitarfélögum o.fl. komu saman til að ræða hvað þarf til að bæta núverandi neyðarviðbragðskerfi, sérstaklega hvað varðar sjóslys og skriður. Þá tóku Jón Haukur og Tom þátt í vinnustofu og opnu málþingi á vegum Háskóla Norðurslóða (UArctic) dagana 14. - 15. október sem einnig fór fram í HA.
Í byrjun október ferðaðist Joan Nymand Larsen til Ilussiat í Diskó-flóa á Vestur-Grænlandi til þess að taka þátt í vettvangsvinnu ásamt teymi alþjóðlegra rannsóknarfélaga. Rannsóknarferðin var á vegum ILLUQ verkefnisins, sem er þverfaglegt sífrerarannsóknarverkefni fjármagnað af EU Horizon rannsóknarsjóði Evrópusambandsins og leitt af Alfred Wegener Institute.
Við heimkomu til Íslands frá Grænlandi sótti Joan upphafsfund í Norræna húsinu í Reykjavík þann 15. október á vegum NordForsk stofnunarinnar sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og veitir NorForsk rannsóknastyrki. Á fundinum var hinu nýlega fjármagnaða verkefni Sustainable use of the Arctic Marine Environment (SustainME) sem SVS er aðili að hleypt af stokkunum, en Joan Nymand Larsen leiðir vinnu SVS innan verkefnisins.

Í Reykjavík síðdegis sama dag tók Tom Barry þátt í pallborðsumræðum á opnu málþingi um áskoranir norðurslóða í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Málþingið sem var á vegum Háskóla norðurslóða og HÍ er hliðarviðburður fyrir hið árlega Hringborð norðurslóða (e. Arctic Circle) ráðstefnuna sem hófst daginn eftir í Hörpu og stóð yfir dagana 16.-18.október.

Á Hringborði norðurslóða var fjölmenn sendinefnd frá norðurslóðastofnunum á Akureyri og fræðafólk HA og SVS tóku virkan þátt í fjölmörgum málstofum. Joan Nymand Larsen var með erindi í málstofunni "Legitimacy and Reputation: The EU as a Reliable Arctic Actor," Catherine Chambers tók þátt í málstofunni "Can We Do Better? Skills for the Next Generation of Arctic Governance Experts" og Tom Barry tók þátt í umræðum í málstofunum "Balancing Act: Navigating Sustainable Development, Conservation, and Governance," "Ireland and the Arctic," og "Iceland’s Arctic Centre: Implementing Iceland's Arctic Policy." Eftir Hringborð norðurslóða ferðaðist Helga Númadóttir til Nuuk á Grænlandi til þess að taka þátt í 18. málþinginu um heimskautarétt og flytja erindið "Mining Encounters in South Greenland: Local perceptions and socioeconomic dynamics of the Nalunaq goldmine" á vegum WAGE - Arctic Economy and Social Transitions verkefnisins.

