Norðurslóðanet Íslands stofnað

Norðurslóðanet Íslands stofnað (09.02.2013)

Norðurslóðanet Íslands var stofnað formlega við athöfn í Borgum á Akureyrifimmtudaginn 8. febrúar 2013. Af því tilefni efndu utanríkisráðuneytið og Háskólinn á Akureyri til móttöku þar sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Stefán Sigurðsson, formaður stjórnar Norðurslóðanetsins og rektor Háskólans á Akureyri, Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings og Embla Eir Oddsdóttir,framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins fluttu stutt ávörp. Við sama tilefni var Dr. Natalia Loukacheva boðin velkomin til starfa við Háskólann á Akureyri sem fyrsti fræðimaðurinn sem gegnir Nansen prófessorsstöðu í norðurslóðafræðum við háskólann. Norðurslóðanetið er hluti af sóknaráætlun landshluta sem Eyþing samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum ásamt utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og umhverfis-og auðlindaráðuneytinu hafa undirbúið í samstarfi við fjölmarga aðila sem tengjast norðurslóðamálum á Akureyri. Megintilgangur Norðurslóðanets Íslands er að auka sýnileika og skilning á málefnum norðurslóða sem og starfsemi aðila sem vinna að málefnum norðurslóða á Íslandi. Netið er vettvangur fyrir fyrirtæki og stofnanir alls staðar að af landinu sem koma að norðurslóðamálum.

Nýráðinn framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins er Embla Eir Oddsdóttir (mynd) sem hefur um langt skeið unnið að verkefnum og rannsóknum er snúa að málefnum norðurslóða. Stofnaðilar að Norðurslóðanetinu eru: Háskólinn á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Heimskautaréttarstofnunin, Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, Rannsóknaþing norðursins, Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Arctic Portal, vinnuhópar Norðurskautsráðsins CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) og PAME (Protection of Arctic Marine Environment). Tengla á vefsíður ofangreindra stofnaðila má finna á vefsíðu Norðurslóðanets Íslands, sem er í vinnslu.