Eldri viðburðir

Helstu viðburðir í starfsemi Stofnunar Vilhjálm Stefánssonar


 

 2013
Norðurslóðadagurinn 2013 (05.11.2013)
Hvernig eflum við þátttöku íslensks vísindasamfélags í alþjóðlegri samvinnu og stefnumótun um norðurslóðir?

Fimmtudaginn 14. nóvember 2013, kl. 09:00 - 17:30, var Norðurslóðadagurinn haldinn í húsnæði Hafrannsóknastofnunar, Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4.

Þar var rætt um (1) hvernig íslenskt vísindasamfélag er í stakk búið til að mæta þeim áskorunum sem hraðfara breytingar á norðurslóðum hafa í för með sér og (2) hvernig vísindasamfélagið er undirbúið til að taka þátt í vaxandi alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Fjallað var á þverfaglegan hátt um framlag og verkefni íslenskra aðila sem koma að alþjóðlegri samvinnu í vöktun, rannsóknum og menntun á norðurslóðum. Kynnt voru viðfangsefni sem tengjast háskólamenntun, mannauði og stoðkerfi rannsókna, þ.m.t. umgjörð stofnana til samvinnu. Jafnframt var fjallað um valin dæmi um samstarf fyrirtækja, háskóla og opinberra stofnana.

Samhliða fyrirlestrum og pallborðsumræðu kynntu stofnanir og félög er tengjast viðfangs- og málefnum norðurslóða starfsemi sína og rannsóknir með veggspjöldum og öðru kynningarefni í anddyri Sjávarútvegshússins. Dagskráin hófst kl. 09:00 með ávarpi ráðuneytisstjóra umhverfis- og auðlindaráðuneytis og lauk með sérstöku öndvegiserindi um norðurslóðarannsóknir.

Skipuleggjandi Norðurslóðadagsins var Samvinnunefnd umhverfisráðuneytisins um málefni norðurslóða; framkvæmd er í höndum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, Rannís, Hafrannsóknastofnunar og Norðurslóðanets Íslands. Dagskrá er að finna hér.

Minningarfyrirlestur 2013 (29.10.2013)
Árlegur fyrirlestur til minningar um Vilhjálm Stefánsson, mannfræðing og landkönnuð, var fluttur í Dartmouth College 29. október 2013 af Thomas McGovern, mannfræðingi. Fyrirlesturinn kallaði hann Sustainability and Collapse in the Norse North Atlantic: Implications for Climate Adaptation Today. Sjá nánari upplýsingar hér.

100 ára afmæli Kanadíska heimskautaleiðangursins
Þann 5. nóvember 2013 vsr dagskrá við Háskólann í Norður-Dakóta tengd lífi Vilhjálms Stefánssonar og 100 ára afmæli Kanadíska heimskautaleiðangursins 1913, með heitinu Science, People & Sustainability in the Canadian Arctic: From the 1913 Canadian Arctic Expedition to the 2013 Arctic Council Chairmanship. Þarna var arfleifð Kanadíska heimskautaleiðangursins kynnt sem og leiðangurstjóri hans, Vilhjálmur Stefánsson, sem var á sínum tíma einn litskrúðugasti og frægasti nemandi Háskólans í Norður-Dakóta.

Finnsk viðurkenning til forstöðumanns SVS
Þann 16. júlí 2013 var forstöðumanni  Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, dr. Níelsi Einarssyni, afhentur Riddarakross finnska ljónsins við athöfn í Sendiráði Finnlands í Reykjavík. Viðurkenningarmerkið veitti sendiherra Finnlands á Íslandi, frú Irma Ertman, fyrir framlag til öflugs og farsæls samstarfs á sviði norðurslóðarannsókna við finnska vísindamenn, háskóla og  rannsóknastofnanir.

Allsherjarráðstefna NABO 2013 í Borgum á Akureyri
Allsherjarráðstefna NABO (North Atlantic Biocultural Organisation) var haldin í rannsóknahúsinu Borgum á Akureyri 12.-13. júlí 2013. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar var gestgjafi ráðstefnunnar.  

Arctic Social Indicators II: kynning á skýrslu  (07.0.2013)
ASI-II skýrslan var kynnt á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins þann 15. maí 2013 í Kiruna í Svíþjóð. Skýrslan verður gefin út í prentaðri útgáfu og á vefnum í kringum 10. júní 2013. Skrifstofa ASI er við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og skýrslan er unnin undir stjórn Dr. Joan Nymand Larsen.

Málstofa: Health and Well Being in Arctic Regions (10.04.2013)
Málstofa um heilbrigðismál á norðurslóðum var haldin í Háskólanum á Akureyri þriðjudaginn 30. apríl 2013 í stofu M-101, kl.  13:00 – 17:45.

Ráðstefna: Sjávartengd ferðaþjónusta á norðurslóðum (20.03.2013)
Ráðstefna og vinnusmiðjur þar sem athyglinni var beint að sjávartengdri ferðaþjónustu, mannlífi og umhverfi á norðurslóðum var haldin í Háskólanum á Akureyri 18.-19. júní 2013. Ráðstefnan var skipulögð af Stofnun Vilhjálms Stefánssonar í samvinnu við RHA, NORA, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Norsk sjømatsenter og Íslenska vitafélagið.

Sjávartengd ferðaþjónusta nýtur sífellt meiri vinsælda og tekur á sig margbreytilegar myndir. Sumir ferðamenn vilja kynnast mannlífi sjávarplássa, upplifa náttúruna, þögnina, skoða fugla og sel og renna fyrir fisk á friðsælum firði. Aðrir vilja spennu hraðbátsins, fara á brimbretti, sjóskíði og kafa, eða leigja sér bát og láta reyna á eigin kunnáttu. Svo eru þeir sem ferðast í hópum frá höfn til hafnar og frá landi til lands á risavöxnum skemmtiferðaskipum.

Hvernig samrýmist þetta menningararfinum, samfélagsþróun, mannlífi, sjálfbærni, fiskveiði- og umhverfisstefnu þjóða norðursins? Hvernig geta þjóðir norðursins unnið saman á þessu sviði og eiga þessir ólíku þættir ferðaþjónustunnar einhvern samstarfsflöt? Á ráðstefnunni verður fjallað um þessar áskoranir og unnið í hópum til að velta upp enn fleiri spurningum.

Í vinnusmiðjum var m.a. rætt um:
- þróun sjávartengdrar ferðaþjónustu í Noregi, Íslandi, Grænlandi og Færeyjum
- tækifæri og ógnir, sjálfbærni og umhverfi – áhrif sjávartengdrar ferðaþjónustu og ímynd norðursins
- á hvaða sviðum við getum unnið saman

Farið var í vettvangskönnun þar sem ferðaþjónustufyrirtæki og söfn voru skoðuð. Ráðstefnan var öllum opin.

Frásagnarlist á norðurslóðum (12.03.2013)
Á félagsvísindatorgi Háskólans á Akureyri kl. 12:00, miðvikudaginn 13. mars 2013 flutti rithöfundurinn dr. Lawrence Millman erindi og las upp úr verkum sínum undir yfirskriftinni: On Northern Storytelling. Torgið var haldið á vegum félagsvísindadeildar HA og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar í stofu M102 að Sólborg við Norðurslóð.

Norðurslóðanet Íslands stofnað (09.02.2013)
Norðurslóðanet Íslands var stofnað formlega við athöfn í Borgum á Akureyri fimmtudaginn 8. febrúar 2013. Af því tilefni efndu utanríkisráðuneytið og Háskólinn á Akureyri til móttöku þar sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Stefán Sigurðsson, formaður stjórnar Norðurslóðanetsins og rektor Háskólans á Akureyri, Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings og Embla Eir Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins fluttu stutt ávörp. Við sama tilefni var Dr. Natalia Loukacheva boðin velkomin til starfa við Háskólann á Akureyri sem fyrsti fræðimaðurinn sem gegnir Nansen prófessorsstöðu í norðurslóðafræðum við háskólann. Norðurslóðanetið er hluti af sóknaráætlun landshluta sem Eyþing samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum ásamt utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hafa undirbúið í samstarfi við fjölmarga aðila sem tengjast norðurslóðamálum á Akureyri. Megintilgangur Norðurslóðanets Íslands er að auka sýnileika og skilning á málefnum norðurslóða sem og starfsemi aðila sem vinna að málefnum norðurslóða á Íslandi. Netið er vettvangur fyrir fyrirtæki og stofnanir alls staðar að af landinu sem koma að norðurslóðamálum.

Nýráðinn framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins er Embla Eir Oddsdóttir sem hefur um langt skeið unnið að verkefnum og rannsóknum er snúa að málefnum norðurslóða. Stofnaðilar að Norðurslóðanetinu eru: Háskólinn á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Heimskautaréttarstofnunin, Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, Rannsóknaþing norðursins, Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Arctic Portal, vinnuhópar Norðurskautsráðsins CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) og PAME (Protection of Arctic Marine Environment). Tengla á vefsíður ofangreindra stofnaðila má finna á vefsíðu Norðurslóðanets Íslands.

2012
Norðurslóðadagar á Grænlandi 20. - 22. september 2012 (17.09.2012)
Samvinnunefnd um málefni norðurslóða stóð fyrir Norðurslóðadögum á Grænlandi 20.-22. september 2012. Á undanförnum árum hefur vísindasamstarf milli íslenskra vísindamanna og vísindamanna á Grænlandi farið vaxandi og er ástæða til að efla það enn frekar.

Á Norðurslóðadögunum var fjallað á þverfaglegan hátt um framlag og samstarfsverkefni grænlenskra og íslenskra aðila sem koma að vöktun, rannsóknum og alþjóðlegri samvinnu á norðurslóðum. Samhliða fyrirlestrum og pallborðsumræðu kynntu stofnanir og félög er tengjast viðfangs- og málefnum norðurslóða starfsemi sína og rannsóknir með veggspjöldum og öðru kynningarefni á ráðstefnustað. Skipuleggjendur Norðurslóðadaganna voru Samvinnunefnd umhverfis- og auðlindaráðuneytis um málefni norðurslóða í samvinnu við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Rannís. Á Grænlandi voru Háskólinn á Grænlandi (Ilisimatusarfik) og Rannsóknarstofnunin um loftslag (Silap Pissusianik Ilisimatusarfik) samstarfsaðilar um dagskrá Norðurslóðadaganna

Málþing á Akureyri um norðurslóðasamstarf Kína og Íslands (17.08.2012)
Mánudaginn 20. ágúst 2012 stóðu Akureyrarbær, Háskólinn á Akureyri, RANNÍS, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Arctic Portal fyrir málþingi um málefni norðurslóða og norðurslóðasamstarf Kína og Íslands.
Málþingið var haldið í Hamraborgarsal í Hofi kl. 8:30-12:30 og var sett af forseta bæjarstjórnar á Akureyri og sendiherra Kína á Íslandi. Fyrirlesarar voru vísindamenn frá Kína og Íslandi sem fjölluðu um norðurslóðarannsóknir landanna, auk þess að taka sérstaklega fyrir þá samstarfsmöguleika sem felast í norðurljósarannsóknum á Íslandi og frekara samstarfi á sviði félagsvísinda. Lokaávarp málþingsins flytur rektor Háskólans á Akureyri.

IASSA skristofan flutt  (16.01.2012)  
Skrifstofa
IASSA sem verið hafði á Stofnun Vilhjálms Stefánssonar 2008-2011 var flutt til University of Northern British Columbia (UNBC) í Prince George í Kanada.

2011
ICASS VII ráðstefnan á Akureyri (01.07.2011)
Sjöunda ráðstefna Alþjóðlegra norðurslóðasamtaka félagsvísindamanna (IASSA) fór fram í húsnæði Háskólans á Akureyri dagana 22.-26. júní 2011. Ráðstefnuna sóttu yfir 400 manns frá 30 löndum og tókst hún í alla staði mjög vel.

2007
Farandsýningin á ferðinni
Farandsýning Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar Heimskautslöndin unaðslegu (Det Venlige Arktis) verður opnuð á Norðurbryggju (Bryggen) í Kaupmannahöfn 1. mars 2007 og er opin almenningi 2. mars til 15. maí. Sýningin er liður í dagskrá þar sem Danmörk, Grænland, Færeyjar og Ísland munu sameiginlega hleypa af stokkunum Alþjóðlega heimskautaárinu (sjá www.arcticportal.is ).
Heimskautslöndin unaðslegu er sýning sem lýsir með listrænum hætti lífi, starfi og hugsjónum Vestur-Íslendingsins Vilhjálms Stefánssonar en er um leið kynning á umhverfi, menningarheimum og málefnum norðurslóða. Komið er á framfæri margvíslegu efni í formi mynda, korta, texta, hljóð- og myndbanda.
Sýningin var fyrst opnuð í Listasafninu á Akureyri í nóvember 2000 og hefur síðan farið til Reykjavíkur, Gimli, Winnipeg, Iqaluit, Nunavut, Norwich í Vermont og Scandinavia House í New York. Einnig er fyrirhugað að fara með hana til Cambridge á Englandi, Rovaniemi í Finnlandi og Ottawa og Yellowknife í Kanada.

Minningarfyrirlestur
Áttunda minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar flutti Dr. Astrid Ogilvie, veðurfarssagnfræðingur við Institute of Arctic and Alpine Research í Boulder, Colorado, í Háskólanum á Akureyri, 7. nóvember 2007. Fjallaði fyrirlesturinn um  loftslag, sögu og mannvistfræði á norðanverðu Íslandi í ljósi þverfaglegra rannsókna. Erindið kallaði hún: “Interdisciplinary Explorations in the Climate, History and Human Ecology of Northern Iceland.” Nánari upplýsingar um Astrid og hennar verk er að finna hér.
Að þessu sinni boðaði Stofnun Vilhjálms Stefánssonar til fyrirlestursins í samstarfi við Háskólann á Akureyri og RANNÍS. Viðburðurinn var liður í framlagi stofnananna til Alþjóða heimskautaársins. Útdrátt fyrirlestursins má lesa hér.

2006
Minningarfyrirlestur
Fyrirlestur til minningar um Vilhjálm Stefánsson var að þessu sinni haldinn við Dartmouth College í New Hampshire þann 1. nóvember 2006. Blaðamaðurinn Andrew C. Revkin frá New York Times flutti fyrirlesturinn sem hann nefndi The North Pole Was Here: On The Front Lines Of Climate Change, From The Arctic To The Beltway. Andrew Revkin er einn virtasti vísindablaðamaður Bandaríkjanna og hefur sl. aldarfjórðung skrifað um allt frá fellibylnum Katrínu og flóðbylgjunni miklu í Asíu til samskipta vísinda og stjórnmála, og loftslagsbreytinga á Norðurslóðum. Hann hefur skrifað um umhverfismál fyrir The New York Times siðan 1995 og þrisvar ferðast til Norðurheimskautssvæðisins.

2005
Minningarfyrirlestur
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Scott Polar Research Institute standa í sameiningu að minningarfyrirlestri Vilhjálms Stefánssonar í ár. Dr. Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands flytur fyrirlesturinn og nefnir hann Travelling Passions: The Life and Legacy of Vilhjalmur Stefansson, the Arctic Explorer. Fyrirlesturinn verður fluttur í húsnæði Scott Polar Research Institute að Lensfield Road í Cambridge á Englandi þann 1. nóvember 2005, kl. 18:00.

2004
Heimsskautslöndin unaðslegu
Farandsýningin um ævi og störf landkönnuðarins og fræðimannsins Vilhjálms Stefánssonar í Scandinavia House í New York frá 30. janúar til 31. mars 2004.

Fimmti minningarfyrirlesturinn var fimmtudaginn 9. september 2004 í Oddfellow húsinu á Akureyri og samanstóð af tveimur erindum fluttum af Svíum í tilefni heimsóknar sænsku konungshjónanna og krónprinsessunnar til Akureyrar.
Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar flutti erindi sem kallaðist "Swedish Arctic Policy" og Sverker Sörlin, prófessor flutti fyrirlestur sem hann kallaði "The Human Arctic: Stefansson, Ahlmann, and the Quest for an Arctic within History".

2003
Fyrirlestur 
Þann 13. febrúar flutti dansk-kanadíski mannfræðingurinn Jette Elsebeth Ashlee fyrirlestur við Háskóla Íslands sem hún nefndi "Samstarf Vilhjálms Stefánssonar og Norðmannsins Storkers Storkerson í kanadíska heimskautsleiðangrinum 1913-1918". Fyrirlesturinn var byggður á rannsóknum á dagbókum og öðrum skjölum. Jette Elsebeth Ashlee stundaði nám við Simon Fraser háskóla og Cambridgeháskóla. Hún hefur um árabil rannsakað feril Storkers Storkerson sem gegndi mikilvægu hlutverki í síðasta leiðangri Vilhjálms Stefánssonar. Fyrirlesturinn var á vegum mannfræði- og þjóðfræðiskorar Háskóla Íslands og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. 

Minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar
Mánudaginn 13. október 2003 hélt landstjóri Kanada, frú Adrienne Clarkson, fjórða minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar, sem hún nefndi "A Threshold of the Mind: The Modern North". Landstjórinn kom til Íslands í opinberri heimsókn í boði forseta Íslands á ferðalagi sínu um norðurslóðir Rússlands, Finnlands og Íslands. Fyrirlesturinn var fluttur í fyrirlestrasal Háskólans á Akureyri í Oddfellowhúsinu við Sjafnarstíg.

2002
Heimsskautslöndin unaðslegu  
Farandsýning um ævi og störf landkönnuðarins og fræðimannsins Vilhjálms Stefánssonar á eftirfarandi stöðum:
-Nunatta Sunakkutaangit Museum í Iqaluit, Nunavut, Kanada, 16. febrúar - 31. mars
-McNamara Alumni Center, University of Minnesota, Minneapolis. Þing Þjóðræknisfélaga Íslendinga í  N-Ameríku, 19. - 21. apríl
-Montshire Museum of Science, Norwich, Vermont, USA, 1. nóvember - 8. desember

NARP ráðstefna á Akureyri 23. - 24. maí
Önnur ráðstefna Nordic Arctic Research Programme haldin í húsnæði Háskólans á Akureyri.

NRF í Veliky Novgorod 19. - 22. september
Annað þing Northern Research Forum haldið í Hólmgarði  (Veliky Novgorod) í Rússlandi.

Minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar, 1. nóvember  
Forseti Íslands, Dr. Ólafur Ragnar Grímsson hélt minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar við Dartmouth háskóla í Hanover í New Hampshire í Bandaríkjunum þann 1. nóvermber.

2001
Heimsskautslöndin unaðslegu  10. mars - 4. júní
Farandsýning um ævi og störf landkönnuðarins og fræðimannsins Vilhjálms Stefánssonar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi.

Vestnorræn veiðimenning  11. - 14. júní
Ráðstefna á Akureyri á vegum Vestnorræna ráðsins í samvinnu við SVS.

Legacy and Vision in Northern Agriculture  27. - 29. ágúst
Fjórða ráðstefna Samtaka um landbúnað á norðurslóðum, skipulögð af SVS, RALA og fleiri aðilum.

Norræna fornleifaráðstefnan  6. - 9. september
Tuttugasta og fyrsta ráðstefna norrænna fornleifafræðinga haldin á Akureyri á vegum Fornleifastofnunar Íslands, í samvinnu við SVS.

2000
Norðurslóðadagur, 19. febrúar, Reykjavík   
Stofnanir og félög er tengjast málefnum norðurslóða kynntu starfsemi sína með skírskotun til verkefna eða samvinnu er tengjast mannvist og umhverfi norðurhjarans.  Dagskráin fór fram í Norræna húsinu

Forestry Beyond the Timberline, 27. - 30. júní, Akureyri 
Ráðstefna á Akureyri um vistfræði og samfélagsleg álitamál er tengjast skógarnytjum á nyrstu mörkum skóglendis. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Skógrækt ríkisins og aðrar innlendar og erlendar stofnanir.

Vinnusmiðja um sjálfbæra þróun í Inari, Finnlandi, 29.ágúst - 1. september
Vinnusmiðjan tók á því hvernig hægt er að styrkja framlag félagsvísinda til umræðunnar um sjálfbæra þróun á norðuslóðum. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar var beinn aðila að skipulagi og framkvæmd vinnusmiðjunar.

Minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar, 3. nóvember, Akureyri      
Árlega stendur Stofnun Vilhjálms Stefánssonar fyrir opinberum  fyrirlestri, þar sem viðurkenndir fræðimenn á sviði norðurslóðavísinda fjalla um málefni norðurslóða. Fyrsta minningarfyrirlesturinn flutti Dr. Oran Young,  prófessor við Dartmouth College og bar hann titilinn fyrirlestur Creating an Arctic Sustainable Development Strategy.  Nú var það mannfræðingurinn Dr. Mark Nuttall frá Háskólanum í Aberdeen sem hélt minningarfyrirlesturinn.  

North Meets North, 4. - 6. nóvember, Akureyri                     
Fyrsta þing Northern Research Forum (NRF), sem er samstarfsvettvangur norðurslóðavísinda. Á þinginu, sem haldið var á Akureyri, gafst fræðimönnum og stefnumótendum tækifæri til að ræða hlutverk vísinda í þróun norðursins.

Heimsskautslöndin unaðslegu, 5. nóvember, Akureyri
Opnun farandsýningar í Listasafni Akureyrar sem fjallar um ævi og störf landkönnuðarins og fræðimannsins Vilhjálms Stefánssonar. Sýningin tekur einnig til norðurslóða samtímans.