Nýr Nansen prófessor við Háskólann á Akureyri

Dr. Gunnar Rekvig hefur verið ráðinn í stöðu Nansen prófessors sem er gestaprófessorsstaða í heimskautafræðum við Háskólann á Akureyri. Staðan er kennd við Fridtjof Nansen, hinn kunna norska heimskautafræðing og húmanista, og er veitt framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Ráðið er í stöðuna til eins árs í senn, samkvæmt samkomulagi um samstarf á sviði heimskautafræða og rannsókna á milli Íslands og Noregs.

Gunnar Rekvig lauk MA-prófi í friðar- og átakafræðum frá Háskólanum í Tromsö (Norges Arktiske Universitet i Tromsø, UiT). Doktorsprófi í alþjóðafræðum lauk hann frá TUFS-háskóla (Tokyo University of Foreign Studies) í Tokyo árið 2017. Gunnar Rekvig starfar nú við Háskólann í Tromsö sem dósent í alþjóðastjórnmálum, með áherslu á norðurslóðir og Rússland. Frekari upplýsingar um Gunnar Rekvig má finna hér.

Gunnar Rekvig flytur fyrirlestur fimmtudaginn 28. nóvember kl. 12 í tilefni af ráðningu í starf Nansen prófessors í heimskautafræðum.