Staða gestaprófessors í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri

Staða gestaprófessors í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri (20.06.2012)

Háskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1987. Þar er stunduð kennsla og rannsóknir á nokkrum fræðasviðum; viðskipta- og raunvísindasviði, hug- og félagsvísindasviði og heilbrigðisvísindasviði. Nemendur eru alls um 1600 og fastráðnir starfsmenn um 180. Háskólinn á Akureyri býður uppá mikinn sveigjanleika í námi, m.a. í gegnum vefstutt fjarnám og samstarf við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar víða um land. Háskólinn er einnig framarlega í rannsóknum á ýmsum sviðum, svo sem líftækni, haffræði og félagsvísindum, og hefur um langt skeið tekið virkan þátt í rannsóknum og kennslu á norðurslóðum.

Á Akureyri má finna ýmsar stofnanir er vinna að málefnum norðurslóða. Má þar nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Heimskautaréttarstofnunin, CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) og PAME (Protection of Arctic Marine Environment), hvorutveggja vinnuhópar norðurskautsráðsins, Rannsóknaþing norðursins, Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri og Arctic Portal norðurslóðavefgátt.

Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs undirrituðu viljayfirlýsingu þann 29. september 2011 varðandi rannsóknasamstarf á sviði norðurslóðafræða. Í yfirlýsingunni er einnig kveðið á um stofnun prófessorsstöðu í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri og er staðan kennd við Fridtjof Nansen, hinn kunna norska heimskautafræðing og húmanista. Hún er veitt til eins árs í senn framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. 

Umsækjendur um stöðuna skulu hafa lokið doktorsgráðu (eða hafa sambærilega reynslu) og hafa traustan fræðilegan bakgrunn á sviði lagalegra málefna og sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. Einnig er krafist reynslu af þverfaglegu starfi er lýtur að hinu flókna samspili mannlegs samfélags og umhverfisins og brýnt er að umsækjendur búi yfir góðri samskiptahæfni og félagslegri færni. Þá er reynsla af rannsóknastarfi varðandi málefni norðurslóða og af þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarteymum nauðsynleg, sem og skjalfest færni til að afla rannsóknarstyrkja.

Í starfi prófessorsins felst einkum: (I) að taka þátt í rannsóknum og kennslu og frekari þróun viðeigandi námsleiða við Háskólann á Akureyri, (II) að eiga náið samstarf við aðra fræðimenn um eflingu kennslu og rannsókna á sviði norðurslóðafræða við Háskólann á Akureyri og stuðla að þróun náms í norðurslóðafræðum í tengslum við Háskóla Norðurslóðanna (University of the Arctic), (III) að halda opna fyrirlestra um málefni norðurslóða, jafnt í nærsamfélaginu, víðar á Íslandi og erlendis, og taka virkan þátt í almennri umræðu um breytingar á norðurslóðum.

Launakjör verða í samræmi við núgildandi kjör prófessora við íslenska ríkisháskóla. Prófessorinn hefur aðgang að sérstökum sjóði sem ætlað er að gera honum kleift að mynda og efla tengsl við innlend og erlend rannsóknateymi og sækja ráðstefnur. Húsnæðis- og flutningsstyrkur stendur einnig til boða þeim sem búa utan Akureyrar.

Umsóknarfrestur er til 15. ágúst 2012. Formlegt ráðningartímabil hefst 1. október 2012; nánari tímasetning er samkomulagsatriði.

Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið  nansen@unak.is. Ekki er notað staðlað umsóknarform. Umsókn skal fylgja greinargóð skýrsla um náms- og starfsferil, fræðistörf og kennslureynslu. Umsækjendur skulu senda með umsókn þær fræðilegu ritsmíðar sem þeir telja sín bestu verk (allt að tíu ritum). Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila til skrifstofu rektors, Háskólanum á Akureyri, Sólborg v/Norðurslóð, 600 Akureyri. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu í starfið hefur verið tekin. Ófullnægjandi umsóknir eru ekki teknar til greina.

Frekari upplýsingar um stöðuna og umsóknarferlið má finna á vef Háskólans á Akureyri og fyrirspurnir um starfið má senda á  nansen@unak.is.