Minningarfyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar 2019

Minningarfyrirlestur 2019Vel sóttur fyrirlestur Vilhjálms Stefánssonar 2019 var haldinn í  Hörpu í Reykjavík þann 10. október – að þessu sinni sem hluti af dagskrá Hringborðs norðurslóða. Fyrirlesari  var Dr. Michael Bravo frá Scott Polar Research Institute við Háskólann í Cambridge á Englandi. Titill erindisins var „An Arctic without End: Visions for our Planet in an Age of the Anthropocene.“ Fyrrverandi forseti Íslands og formaður Hringborðs norðurslóða, Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, flutti einnig stutta tölu en Dr. Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar opnaði athöfnina og stýrði umræðum. Dr. Lauren E. Culler, fulltrúi Rannsóknarstofnunarinnar um norðurslóðir við Dartmouth College var einnig viðstödd.

Fyrirlestrar til minningar um Vilhjálm Stefánsson og störf hans eru haldnir árlega í boði Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og Rannsóknarstofnunarinnar um norðurslóðir við Dartmouth College í Bandaríkjunum. Að þessu sinni var fyrirlesturinn hugsaður sem framlag til formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og ARCPATH, norræns öndvegisseturs í norðurslóðarannsóknum.

Á myndinni eru Dr. Michael Bravo og Dr. Níels Einarsson með nokkrum fyrrum flytjendum minningarfyrirlestrarins: F.v. Dr. Oran Young, Dr. Leslie King, Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, Dr. Níels Einarsson, Dr. Michael Bravo, Dr. Astrid Ogilvie og Dr. Brynhildur Davíðsdóttir.