Arctic Youth and Sustainable Futures

Arctic Youth and Sustainable Futures (Arctic Youth) er samvinnuverkefni sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar leiðir og verður unnið af alþjóðlegum vinnuhóp sem samanstendur af sérfræðingum úr ýmsum fræðigreinum og hafa margir þeirra tekið þátt í verkefnum á borð við Arctic Human Development Report og Arctic Social Indicators (AHDR II  og ASI II).

Á síðustu áratugum hafa verið gerðar margar rannsóknir í tengslum við norðurheimskautið og fólkið sem þar býr. Allar þessar rannsóknir sýna að ákveðnar eyður hafa myndast hvað varðar þekkingu okkar á ungu fólki á norðurslóðum og er þessi rannsókn hugsuð til að safna gögnum til að fylla upp í þessar eyður. Einnig verður skoðað hvernig framtíð norðurslóða er beintengd unga fólkinu sem býr á þessum slóðum. Verkefnið er byggt upp á rýnihópasamtölum sem munu fara fram á þeim svæðum sem tilheyra norðurslóðum. Er það gert með opnum spurningum um vonir þeirra, áhyggjur og áskoranir, en það eru þættir sem komið hefur fram í fyrri rannsóknum að okkur skortir skilning á. Einnig munu sérfræðingarnir taka ítarleg viðtöl við ungmennin ásamt því að sinna þeim könnunum sem verða gerðar.   

Íslenski hlutinn af þessari alþjóðlegu rannsókn mun verða haldinn á Akureyri þar sem sérfræðingar munu velja hóp af ungu fólki á aldrinum 18 – 24 ára til að taka þátt í rýnihópastarfi. Útkoman frá ungu fólki á Íslandi skiptir miklu máli fyrir þessa rannsókn til að sjá hvar þau standa í samanburði við ungt fólk á sama aldri annarsstaðar í löndunum sem tilheyra norðurslóðum.

Hér að neðan eru sjö punktar um meginforsendur og markmið rannsóknarverkefnisins Arctic Youth: 

1. Framtíð ungmenna sem búa innan norðurskautssvæðisins er skoðuð með tilliti til þeirra langana, hugmynda og áhuga, ásamt þeim metnaði sem þau hafa fyrir þeim krefjandi verkefnum sem þau standa frammi fyrir í þeim breytingum sem eiga sér stað í heiminum í dag. Skoðaðar verða hugmyndir unga fólksins í tengslum við lífsstíl, menntun, búsetu, umhverfi og áhrif og aðlögun í tengslum við loftslagsbreytingar. 

2. Breytileiki á menningu, tungumáli, hefðbundnum störfum og samfélögum á norðurslóðum mun fylgja ákvörðunum sem unga fólkið mun taka. Því er nauðsynlegt að skilja betur langanir þeirra og drauma og þær hindranir sem eru í veginum. Of mörg ungmenni á norðurslóðum þjást af félagslegri firringu sem í versta formi brýst út í mikilli neyslu eða jafnvel sjálfsvígum. Rannsóknin og greiningin munu taka á spurningum tengdum þessu og mun það móta helstu stefnur í þessu tilliti. 

3. Auka þarf skilning á hvernig almenn menntun geti skipt miklu máli fyrir fólk, sérstaklega ungt fólk og karlmenn á jaðarsvæðum. Hvaða hlutverk gæti aukin tækniþróun haft í tengslum við menntun og atvinnutækifæri á heimaslóðum? Hvaða hlutverk gæti aukin kunnátta í bæði menntun og aukinni tæknivæðingu haft í tengslum við að móta viðhorf ungs fólks við hefðbundna starfsemi, ásamt því að bjóða upp á hagkvæma og aðlaðandi framtíð? Hvaða stefnumarkandi fjárfestingar í uppbyggingu mannauðs er hægt að leggja fram til að tryggja að ungmenni, bæði karlkyns og kvenkyns, vilji búa áfram eða skila sér til baka í smærri byggðir eða þéttbýlisstaði í norðri til að búa þar í framtíðinni? Rannsóknarspurningarnar hér munu snúast um hvernig hægt er að gera menntun meira aðlaðandi fyrir ungt fólk, hvernig hægt er að tengja betur saman foreldra og sveitarfélög og hvernig hægt er að auka samfélagshlutdeild þegar kemur að ákvörðunartöku um formlega skólagöngu. Hvaða hlutverk getur óformlegt nám haft til að styðja við formlegt námsumhverfi? 

4. Þéttbýlismyndun hefur aukist til muna á norðurslóðum og hefur flutningur frá jaðarsvæðum í þéttbýli haft mikil áhrif á til dæmis breytingar í hagkerfinu og úrræðum í tengslum við auknar vonir og þróun á formlegri menntun á jaðarsvæðum. Rannsóknin á þessu efni mun tengjast fólksflutningum og hreyfanleika ungs fólks á norðurslóðum og mun kyn og þjóðerni vera sérstaklega skoðað. 

5. Áhugi á norðurslóðum hefur aukist til muna og hafa loftslagsbreytingar og aukin tækifæri á nýtingu auðlinda spilað þar stórt hlutverk ásamt umfjöllun fjölmiðla um þessi málefni. Þetta hefur leitt til þess að norðurslóðir eru orðnar „seljanlegri“ og auðkenni norðurslóða eru í auknum mæli orðin ákveðinn fengur. Rannsóknin mun innihalda spurningar um hvernig unga fólkið á norðurslóðum sér sjálft sig í þessu umhverfi og hvert sjónarmið þeirra þegar kemur að markaðsetningum á auðkennum norðurslóða er.

6. Aukinn áhugi á lögmætri þátttöku í ákvarðanatöku og áframhaldandi nýsköpun í stjórnsýslu á norðurslóðum má skoða á öllum stigum. Það verða lagðar fram spurningar í tengslum við ungmenni á norðurslóðum og væntingar þeirra varðandi stjórnunarhætti, sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði, stjórn á örlögum og horfum á frekara umboði íbúa norðurslóða í svæðisbundnum, innlendum og alþjóðlegum stofnunum.  

7. Miklar væntingar eru í tengslum við námuvinnslu, en á sama tíma eru merki um vöxt í öðrum atvinnugreinum sem tengjast ekki námuvinnslu. Spurningar verða lagðar fyrir ungmenni á norðurslóðum um efnahaglegt sjálfstæði, val á starfsvettvangi, hefðbundinn og grænan valkost efnahags, og hnattvæðingu.

Helsta markmið er að gefa út ritrýnda bók í TemaNord-ritröð forlags Norrænu ráðherranefndarinnar (áætluð um 200 síður) þar sem niðurstöðurnar frá þessum rannsóknum verða teknar saman og kynntar ítarlega. Þar verða kynntar niðurstöður frá umræðum við unga fólkið, samantekt á lesefni um málefnið, ítarlegar greiningar og umfjöllun í tengslum við þær eyður sem eru í núverandi þekkingu okkar á mannlegri þróun og sjálfbærri framtíð ungs fólks á norðurslóðum. 

Verkefnisstjóri
Dr. Joan Nymand Larsen, vísindamaður og deildarstjóri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar;
prófessor við Háskólann á Akureyri

Vísindalegur ráðgjafi
Dr. Jón Haukur Ingimundarson, mannfræðingur og sviðsstjóri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar;
dósent við Háskólann á Akureyri

Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.

Norden